Innlent

Fjárhagsaðstoð hækkar í Reykjavík

Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík
Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík
Reykjavíkurborg hyggst hækka fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga um 19% frá 1. janúar 2011. Frá þeim tíma verður grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar kr. 149.000 í stað 125.540 kr. Hækkunin nær til þeirra íbúa sem reka eigið heimili og fá fjárhagsaðstoð til framfærslu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þar segir einnig aðf járhagsaðstoð til hjóna hækkar úr kr. 200.864 í kr. 223.500, eða um 11% frá sama tíma.

Reykvíkingar sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu munu fá greidda sérstaka jólauppbót sem nemur 31.385 krónum. Þetta gildir fyrir þá sem hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu í 3 mánuði eða lengur. Ennfremur verður greidd 12.640 króna uppbót vegna hvers barns á heimilinu. Gert er ráð fyrir að rúmlega þúsund einstaklingar fái desemberuppbót og að aðstoðin nái til rúmlega 500 barna.

Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti tillögu Besta flokksins og Samfylkingar þessa efnis á fundi sínum í kvöld og var tillögunni að því loknu vísað til borgarráðs.

Jón Gnarr, borgarstjórinn í Reykjavík, fagnar hækkun fjárhagsaðstoðar. „Það er ljóst að margir eiga erfitt um hver mánaðamót og ná ekki endum saman. Það bitnar ekki síst á börnum. Með þessu móti vilja borgaryfirvöld bæta hag þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem fá aðstoð frá Reykjavíkurborg."

Heildarkostnaður vegna þessarar hækkunar fjárhagsaðstoðar eru 368 milljónir króna, miðað við óbreyttan fjölda notenda. Gert er ráð fyrir að heildarútgjöld til fjárhagsaðstoðar á árinu 2011 verði 2,8 milljarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×