Erlent

Nýsjálendingar greina frá fljúgandi furðuhlutum

Stjórnvöld á Nýja Sjálandi hafa gert opinberar allar upplýsingar sem þau hafa um fljúgandi furðuhluti sem sést hafa yfir eða við landið á árunum 1954 til 2009.

Um er að ræða yfir 2.000 skjöl sem innihalda meðal annars myndir og teikningar af fljúgandi furðuhlutum ásamt sýnishornum af meintri skrift geimvera.

Í þessum upplýsingum er að finna gögn um þekktasta fljúgandi furðuhlut landsins sem kvikmynd náðist af nálægt bænum Kaikoura á suðureyju landsins árið 1978.

Þessi furðuhlutur vakti heimsathygli en myndin sýnir sérkennilegan ljósagang við bæinn. Á sínum tíma sögðu stjórnvöld að ljósin ættu sér skýringu sem náttúrulegt fyrirbirgði. Talsmaður flughersins vill ekki tjá sig um málið í kjölfar þess að upplýsingarnar eru nú opinberar, segir að herinn hafi ekki burði til að rannsaka fljúgandi furðuhluti.

Meðal skjalanna eru einnig vitnisburðir frá flugmönnum frá bæði her og almennum flugmönnum þar sem greint er frá nálægð við óútskýrð ljós á hreyfingu um himininn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×