Erlent

Með hreyflana fulla af mávum

Óli Tynes skrifar
Birdie namm namm.
Birdie namm namm.

Boeing 757 þota frá Thomas Cook fór í gegnum mikið mávager í flugtaki frá Tyrklandi til Bretlands án þess að flugmennirnir gerðu sér grein fyrir hversu alvarlegt það var. Yfir 230 farþegar voru um borð. Flugmennirnir heyrðu dynki þegar þeir flugu í gegnum mávagerið og tilkynntu um það til flugumferðarstjórnarinnar. Mælitæki sýndu hinsvegar engin merki um að neitt væri að. Það sást að vísu að titringur jókst í hægri hreyfli í skamma stund. En það jafnaði sig og þá var flogið áfram og lent í Manchester. Það flug var tíðindalaust.

Það var ekki fyrr en síðar sem flugmennirnir fréttu af því að sægur af dauðum mávum hefði fundist í flugtaksstefnunni. Og það var ekki fyrr en eftir lendingu að það kom í ljós að það var sprunga í ratsjárhlíf á nefi vélarinnar. Einnig voru lendingarljós brotin og margar beyglur á loftinntökum hreyflanna. Þá voru tætlur af máfum í hjólabúnaði vélarinnar. Þetta gerðist í júní í sumar og nú liggur fyrir skýrsla frá rannsóknarnefnd flugslysa. Þar segir að ljóst sé að margir fuglar hafi farið í gegnum báða hreyfla vélarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×