Innlent

Mál verði höfðað gegn Bretum

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson. 14 þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar vilja höfða mál gegn Bretum.
Gunnar Bragi Sveinsson. 14 þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar vilja höfða mál gegn Bretum. Mynd/Stefán Karlsson

Fjórtán þingmenn þriggja flokka hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól fyrir að beita hryðjuverkalögum gegn íslenska ríkinu og íslenskum fyrirtækjum í október 2008. Þingmennirnir vilja að gerð verði krafa um skaðabætur.

Hinn 8. október 2008 beittu bresk stjórnvöld lögum um varnir gegn hryðjuverkum gegn Landsbanka Íslands, frystu eignir bankans og settu þar með Ísland á lista yfir hættulegustu samtök og menn heimsins. „Með þeim aðgerðum skilgreindu bresk stjórnvöld Ísland og Íslendinga sem hryðjuverkamenn," segir í greinargerð með tillögunni.

Liam Fox, varnarmálaráðherra Breta, bað Íslendinga nýverið afsökunar á að fyrri ríkisstjórn hefði beitt þjóðina hryðjuverkalögum í bankahruninu.

Svívirðileg framkoma

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Meðflutningsmenn eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Höskuldur Þórhallsson, Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Pétur H. Blöndal, Sigurður Kári Kristjánsson og Guðlaugur Þór Þórðarson.

„Ljóst má vera að beint og óbeint tjón íslensks atvinnulífs varð gríðarlegt og dýpkaði þannig þá efnahagslegu kreppu sem skollin var á. Margt bendir því til þess að fjárhagslegt tjón íslensku þjóðarinnar og íslenskra fyrirtækja vegna aðgerða bresku ríkisstjórnarinnar sé mikið. Því er eðlilegt að bresk stjórnvöld axli ábyrgð á því tjóni sem ákvörðun þeirra olli og greiði skaðabætur, enda um ólöglega og svívirðilega framkomu að ræða," segir í greinargerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×