Innlent

Rænd tvisvar á einni viku á götum Kaupmannahafnar

Athena lenti í því að vera rænd tvisvar á einni viku í Kaupmannahöfn. Hún flutti þangað fyrir þremur mánuðum og leggur stund á nám í tísku­markaðssetningu.fréttablaðið/vilhelm
Athena lenti í því að vera rænd tvisvar á einni viku í Kaupmannahöfn. Hún flutti þangað fyrir þremur mánuðum og leggur stund á nám í tísku­markaðssetningu.fréttablaðið/vilhelm
„Núna langar mig að líma allt dótið mitt á mig svo það verði ekki tekið af mér,“ segir Athena Ragna, fyrir­sæta og nemi í tískumarkaðssetningu í Kaupmannahöfn.

Athena lenti í því á dögunum að vera rænd tvisvar á einni viku á götum Kaupmannahafnar. Ráns­alda gengur yfir borgina þessa dagana og danskir fjölmiðlar hafa hvatt almenning til að vera á betur á varðbergi en áður. Athena vonast til að reynsla hennar verði öðrum víti til varnaðar, enda Kaupmannahöfn gríðarlega vinsæll viðkomustaður Íslendinga, sem hafa hingað til ekki nefnt borgina á nafn í sömu andrá og vasaþjófa.

Þegar fyrra ránið var framið var Athena á leiðinni á Ráðhústorgið á sunnudegi. Mikið af fólki var á ferðinni og hún rakst utan í nokkra á leið sinni. „Svo þegar ég ætlaði að fá mér að borða með vinkonu minni var ekkert veski, engin myndavél og enginn sími. Ég tók ekkert eftir þessu,“ segir hún.

„Ég tek fulla ábyrgð á seinna ráninu því þá var ég bara kærulaus. Ég lét töskuna mína frá mér þegar ég var á Strikinu. Ég sá engan í kringum mig nema fólkið sem var með mér. Svo 30 sekúndum seinna var taskan horfin.“

Seinni þjófarnir komust á brott á með það sem fyrri þjófarnir náðu ekki: eldri bráðabirgðasíma, húslykla og lestarkort. Athena tekur þessari einstöku óheppni með jafnaðargeði. „Í fyrsta skipti var ég miður mín, en í annað skipti var ég bara „nei, kommon!“. Mamma mín skellihló líka þegar hún frétti þetta,“ segir hún og játar að hún sé miklu varkárari í dag.

Fólkið í kringum Athenu hefur einnig orðið fyrir barðinu á þjófum sem hafa verið sérstaklega klókir undanfarið. „Það komu stelpur í heimsókn yfir helgi og tvær af þeim voru rændar, strákurinn sem ég bý með var rændur, tvær stelpur úr bekknum mínum voru rændar. Þetta er alltaf að gerast,“ segir Athena.

Fréttablaðið greindi frá ævintýrum Athenu í sumar, en til stóð að hún léki lítið hlutverk í kvikmynd Guy Maddin, Keyhole. Kreppan kom í veg fyrir það þegar hún var komin með handrit og flugmiða í hendurnar á leið til Kanada, þar sem myndin er tekin upp. Framleiðendurnir höfðu ekki efni á að greiða henni laun og uppihald og var því heimastúlka fengin í hlutverkið. „Þetta var búið að vera í gangi frá því í febrúar. Ég var heillengi að sannfærast, en svo var þetta loksins að fara að gerast,“ segir Athena sem tekur óheppninni með stóískri ró. „Skítur skeður.“

atlifannar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×