Innlent

Íran vill efla menningartengsl við Ísland

Valur Grettisson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson ásamt Seyed Hossein Rezvani, sem er nýr sendiherra frá Íran.
Ólafur Ragnar Grímsson ásamt Seyed Hossein Rezvani, sem er nýr sendiherra frá Íran. Mynd / Forseti.is.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hitti Seyed Hossein Rezvani, sem er nýr sendiherra frá Íran, í vikunni. Samkvæmt frétt sem birtist á heimasíðunni Fars news Agency mun Ólafur Ragnar hafa rætt við íranska sendiherrann um að styrkja tengsl Íslands við Íran.

Ólafur Ragnar sagði í samtali við íranska sendiherrann að Ísland væri reiðubúið til þess að flytja þekkingu og reynslu á fiskveiðum og jarðhita til Írans.

Rezvani lýsti því yfir á fundinum að hans þjóð væri reiðubúin að efla pólitísk og menningarleg tengsl við Ísland.

Þá lagði íranski sendiherrann áherslu á gagnkvæmar heimsóknir af pólitískum og efnahagslegum toga og óskaði eftir auknu samstarfi á milli landanna á sviði stjórnmála sem og einkageirans.

Rezvani hitti einnig Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra í gær á öðrum fundi. Í frétt Fars fréttastofunnar segir að þar hafi þeir rætt um nýjustu þróun í samskiptum þjóðanna og önnur málefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×