Innlent

Háðir því að þingmenn breyti lögum

Lögreglumenn þurfa að vera við öllu búnir, hér eru nemar úr Lögregluskólanum á sjóæfingu.Fréttablaðið/Vilhelm
Lögreglumenn þurfa að vera við öllu búnir, hér eru nemar úr Lögregluskólanum á sjóæfingu.Fréttablaðið/Vilhelm
Áformað er að 20 nemendur hefji nám í Lögregluskóla ríkisins í byrjun febrúar. Til að svo megi verða þarf Alþingi að samþykkja frumvarp um breytingar á náminu eftir að þingmenn koma úr jólafríi um miðjan janúar, segir Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskólans.

Áður en þingmenn fóru í jólafrí var lagt fram frumvarp um breytingu á lögreglulögum. Þar er lagt til að Lögregluskólinn hætti að borga nemum laun á síðasta hluta námsins. Arnar segir samþykkt þessa frumvarps forsendu þess að skólinn taki við nemendum.

Hingað til hafa lögreglunemar setið eina önn í skólanum launalaust, og farið að því loknu í starfsnám þar sem þeir hafa fengið laun hjá því embætti sem þeir hafa starfað við. Að lokum hafa þeir setið aðra önn í skólanum og fengið laun frá skólanum á meðan.

Verði frumvarpið, sem lagt er fram af fulltrúum allra flokka nema Hreyfingarinnar, að lögum breytist þetta fyrirkomulag. Lögregluskólinn mun þá greiða laun nemanna meðan á starfsnámi stendur, en þeir verða ólaunaðir í bóknáminu.

Þetta mun hafa í för með sér hagræði þar sem nú verður tryggt að nemar geta fengið starfsnám þó að lögregluembættin hafi ekki efni á að ráða sumarmenn til starfa, segir Arnar. Bóknámið verði nú að fullu lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×