Innlent

Þúsundir missa afslátt í sund

Frá Vesturbæjarlaug Sundlaugar Reykjavíkur hafa hækkað viðmiðunaraldur vegna afsláttar eldri borgara upp í 70 ár.
Fréttablaðið/Vilhelm
Frá Vesturbæjarlaug Sundlaugar Reykjavíkur hafa hækkað viðmiðunaraldur vegna afsláttar eldri borgara upp í 70 ár. Fréttablaðið/Vilhelm
Afsláttur sundlauga Reykjavíkur fyrir eldri borgara verður frá áramótum miðaður við 70 ár í stað 67 ára áður.

Til þessa hóps teljast nú nær fjögur þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu, sem munu því þurfa að greiða fullan aðgangseyri, eða 450 krónur, eftir að þessi aldurshópur hafi um árabil verið undanþeginn gjaldi.

Samkvæmt nýrri fjárhagsáætlun borgarinnar er aðeins gert ráð fyrir að velferðarsvið niðurgreiði strætisvagnafargjöld og gjald á sundstaði fyrir 70 ára og eldri.

Í svari borgaryfirvalda við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að gert sé ráð fyrir að þessi niðurskurður spari borginni um 20 milljónir króna á ári.

Ekki verður hreyft við aldursmörkum í annarri þjónustu borgarinnar við aldraða.

Sigurður Einarsson, framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík, segist óánægður með þessa breytingu og að borgaryfirvöld séu þar á villigötum.

„Það er erfitt fyrir fólk að setja beint út á hækkanir þegar maður veit að staðan er erfið, en það er ekki sama hvernig það er gert. Þegar það er gert með því að ákveða að eldri borgarar séu ekki komnir í þennan hóp, finnst mér það alveg fáránlegt.“ - þj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×