Innlent

Bæjarstjórinn: „Ódýrara að vera með börn í Garðabæ“

Mynd úr safni / Vilhelm
„Það er ódýrara að vera með börn í Garðabæ en víðast annars staðar," segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar. Hann segir að þegar miðað er við þær heildargreiðslur sem falla á foreldra barna frá því börnin eru níu mánaða til fimm ára gömul sé einna hagstæðast fyrir barnafólk að búa í Garðabæ.

Hærra gjald í Reykjavík

Vísir sagði fyrr í dag frá gjaldskrárhækkunum hjá leikskólum í bæjarfélaginu. Þar kom fram að kostnaður við aukavistun umfram átta klukkustundir hækkar um 100% um áramótin. Þá kostar klukkustundin 6200 krónur.

Gunnar vekur athygli á því að foreldar þurfi að greiða meira fyrir þessa aukavistun í nágrannasveitarfélögunum, en í Reykjavík þurfa foreldrar að borga 10.500 krónur fyrir þann klukkutíma sem fer umfram átta tíma, samanborið við 6200 krónur í Garðabæ.



Ekki of lengi á leikskólanum


Gunnar segir að ýmsar ástæður liggi að baki því að ákveðið var að hækka þetta gjald hjá Garðabæ. „Síðasti tíminn er í raun dýrasti tíminn miðað við starfsfólk í hundrað prósenta starfi. Við erum í raun að hvetja til þess að börn séu ekki allt of lengi á leikskólanum. Þannig eru bæði rekstrarleg og fagleg rök að baki þessi. Foreldrar þurfa kannski að skipuleggja sig aðeins betur," segir Gunnar.

Hann tekur fram að einstæðir foreldrar og námsmenn fá 40 prósenta afslátt af gjaldskrá leikskólanna og hafa fengið frá síðustu áramótum. Þá var afslátturinn hækkaður úr 30 prósentum.

Hvað minnkun afsláttar fyrir þriðja barn á leikskóla varðar segir Gunnar að það sé í sárafáum tilfellum sem fólk sé með þrjú börn á leikskólaaldri. „Þetta er afsláttur sem kom inn í góðærinu. Þetta er í raun ekki stórvægileg breyting," segir hann. Eins og kom fram á Vísi í dag lækkar afsláttur fyrir þriðja barn um áramótin úr 75% og niður í 50%

Gunnar bendir ennfremur á að í Garðabæ fá fimm ára börn fjóra fría tíma á leikskóla og að sama gjald sé greitt hvort sem börnin eru hjá dagforeldrum eða á leikskóla. „Við greiðum niður 50 þúsund krónur hjá dagforeldrum," segir hann. Foreldrar í Garðabæ hafi þannig meira val, óháð greiðslum þeirra.




Tengdar fréttir

100% hækkun á umframvistun í Garðabæ

Gjald fyrir vistun barna á leikskóla í Garðabæ, umfram átta klukkustundir, hækkar um hundrað prósent þann 1. janúar. Auka klukkustund kostar frá þeim tíma 6400 krónur á mánuði, auka hálftími 3200 krónur og greiða þarf 1600 krónur fyrir auka korter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×