Innlent

Verja 1600 milljónum vegna húsnæðisvanda framhaldsskóla

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra skrifaði undir samkomulag um byggingar framhaldsskóla. Mynd/ Daníel.
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra skrifaði undir samkomulag um byggingar framhaldsskóla. Mynd/ Daníel.
Alls verður 1600 milljónum króna varið til þess að leysa húsnæðisvanda þriggja framhaldsskóla á tímabilinu 2011 til 2014. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaðherra, og Jón Gnarr borgarstjóri skrifuðu í dag undir yfirlýsingu þessa efnis.

„Það er mjög mikilvægt að samstarfi ríkis og borgar við uppbyggingu framhaldsskóla í borginni sé haldið áfram, en með því er leyst úr aðkallandi húsnæðisvanda þriggja skóla á næstu árum," segir Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra í yfirlýsingu sem birt er á vef ráðuneytisins að þessu tilefni.

Gamli Miðbæjarskólinn verða nýttur undir starfsemi Kvennaskólans í Reykjavík. Samkomulag liggur fyrir um kaup ríkisins á 60% hlut í húsnæðinu af Reykjavíkurborg sem áfram mun eiga 40%, í samræmi við ákvæði laga um stofnkostnað opinberra framhaldsskóla.

Þá verður ráðist í nauðsynlegar framkvæmdir til úrbóta í aðgengismálum í Menntaskólanum við Sund á næstu misserum. Einnig er gert ráð fyrir viðbyggingu sem að stærstum hluta mun verða kennslurými. Áformað er að undirbúningur og framkvæmdir geti hafist á árinu 2012.

Framkvæmdir við Fjölbrautaskólann við Ármúla hafa staðið yfir að undanförnu vegna viðbyggingar við húsnæði skólans. Þær framkvæmdir munu halda áfram og er áformað að þeim ljúki samkvæmt áætlun á árinu 2012.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×