Innlent

Ásmundur sammála Lilju - fjárlögin rædd áfram í dag

Ásmundur Einar hefur áhyggjur af fjárlagafrumvarpinu í núverandi mynd
Ásmundur Einar hefur áhyggjur af fjárlagafrumvarpinu í núverandi mynd Mynd: Anton Brink
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna og fulltrúi flokksins í fjárlaganefnd, hefur áhyggjur af þeim mikla niðurskurði sem boðaður er í fjárlagafrumvarpinu. Hann tekur því undir með Lilju Mósesdóttur, þingmanni Vinstri grænna og formanni viðskiptanefndar, um að niðurskurðarhugmyndir séu mögulega of miklar miðað við spár um dræman hagvöxt.

Lilja lýsti þessum áhyggjum sínum á ræðu á Alþingi í nótt og tók Ásmundur undir með henni í ræðu sem hann hélt skömmu síðar. Ásmundur gekk þó ekki jafnt langt og Lilja sem lýsti því yfir að hún ætlaði að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um frumvarpið ef það yrði lagt fram í núverandi mynd.

Ásmundur benti á að samdrátturinn í ár hafi verið mun meiri en gert var ráð fyrir í efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðnum frá 2008. Þá var búist við því að hagvöxtur stæði í stað þetta árið og að á næsta ári, 2011, yrði hann þrjú prósent. Raunin er hins vegar sú að hagvöxturinn í ár var neikvæður um þrjú prósent og spár gera ráð fyrir að hann verði líklega öðru hvoru megin við eitt prósentið á næsta ári. „Verði raunin sú þá er það gríðarlegt áhyggjuefni," sagði Ásmundur í ræðu sinni.

Hann segir nauðsynlegt að Íslendingar spyrji sig hvort þeir séu að festast í neikvæðum vítahring þar sem þær tillögur sem lagðar eru fram í fjárlagafrumvarpinu geti mögulega haft neikvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu í landinu.

Til stendur að ljúka annarri umræðu um fjárlagafrumvarpið á Alþingi í dag og hefst þingfundur klukkan tvö. Að umræðu lokinni er stefnt að atkvæðagreiðslu en umræðum í nótt var frestað þegar þingfundur hafði staðið til klukkan fögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×