Innlent

Fáum 6.400 tonna þorskkvóta í Barentshafi

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar ásamt, Vladimir Beyaev formanni rússnensku sendinefndarinnar, Steinari Inga Matthíassyni formanni íslensku sendinefndarinnar á fundinum og Jón Bjarnason, sjávrútvegs- og landbúnaðherra.
Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar ásamt, Vladimir Beyaev formanni rússnensku sendinefndarinnar, Steinari Inga Matthíassyni formanni íslensku sendinefndarinnar á fundinum og Jón Bjarnason, sjávrútvegs- og landbúnaðherra.

Ísland mun fá tæplega 6.400 tonna þorskkvóta í Barentshafi á næsta ári. Þetta er á grundvelli svokallaðs Smugusamnings sem gerður var milli Íslands, Rússlands og Noregs árið 1999.

Í tilkynningu frá landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu segir að samstarfsnefnd Íslands og Rússlands fundaði um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegsmála í Reykjavík í síðasta mánuði. Á fundinum voru rædd þau mál sem helst eru á döfinni varðandi samstarf landanna á vettvangi sjávarútvegsmála og fiskveiða.

Á fundinum skiptust fulltrúar landanna á upplýsingum um framkvæmd samningsins frá 15. maí 1999 milli ríkisstjórnar Íslands, Noregs og Rússlands um tiltekna þættir í samstarfi á sviði sjávarútvegs (Smugusamningur). Þannig var fjallað um samstarf á sviði veiðieftirlits, hafrannsókna, um veiðistjórnun sameiginlegra stofna á Norður Atlantshafi m.a. úthafskarfa, kolmunna, norks-íslenska síld og makríl. Á fundinum var sérstaklega rætt um mikilvægi þess að samkomulag náist um stjórnun úthafskarfaveiða.

Af hálfu Íslands var lögð áhersla á að framtíðar veiðistjórnunin byggi á þeirri vísindalegu þekkingu og ráðgjöf sem fyrir liggi. Þá var jafnframt rædd staðan í samningaviðræðum um makríl og lýstu báðir aðilar yfir mikilvægi þess að fyrr en síðar náist samkomulag aðila um framtíðar veiðistjórnun sem tryggt getur sjábæra nýtingu stofnsins.

Alls munu koma 6.390 tonn af þorski í hlut Íslands á grundvelli samnings ríkjanna tveggja á árinu 2011. Jafnframt var fjallað um sölukvóta sem íslenskar útgerðir hafa rétt á að kaupa samkvæmt samningnum og nemur hann alls 2.396 tonnum og eru til frádráttar þeim 6.390 tonnunum sem koma í hlut Íslands á næsta ári. Þá eru 1.278 tonnum af ýsu ráðstafað sem meðafla auk 639 tonnum í öðrum meðafla tegundum.

Enn frekar ræddu ríkin um frekara samstarf á sviði sjávarútvegsmála á fjölþjóðlegum vettvangi þar sem áherslur og hagsmunir ríkjanna tveggja fara oft saman. Þá var rætt um mögulegt aukið tvíhliðasamstarf á fjölþættum sviðum sjávarútvegs.

Að loknum fundinum lýstu báðir aðilar yfir ánægju með viðræðurnar og mikilvægi þeirra í tvíhliða samaskiptum ríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×