Innlent

Brenndu rútu til kaldra kola

Rútubruninn átti sér stað í Vestmannaeyjum.
Rútubruninn átti sér stað í Vestmannaeyjum.

Ríkissaksóknari hefur ákært þrjá unga menn, á aldrinum átján ára til rúmlega tvítugs, fyrir að kveikja í rútu í Vestmannaeyjum og brenna hana til kaldra kola. Piltarnir eru ákærðir fyrir að hafa valdið almannahættu með þessu tiltæki sínu.

Atvikið átti sér stað aðfaranótt 1. apríl á síðasta ári. Rútan stóð mannlaus og án skráningarmerkja. Svo mikill hiti var af eldinum að klæðning og gluggarúður í nálægu húsi skemmdust, og við lá að eldur blossaði upp í því. Þar voru geymdir flugeldar, svo og tæki og búnaður björgunarsveitar.

Í ákæru er tveim piltanna gefið að sök að hafa í tvígang sótt eldfiman vökva úr geymsluhúsnæði til að nota við íkveikjuna. Allir komu þeir við sögu við íkveikjuna sem mistókst í fyrra sinnið en hafðist loks þegar þeir helltu vökvanum í rútuna, fleygðu vökvabrúsanum inn í hana og báru eld að. Í millitíðinni höfðu piltarnir ekið um götur Vestmannaeyjabæjar til að njósna um ferðir lögreglunnar.

Vestmannaeyjabær krefur piltana um skaðabætur að fjárhæð rúmlega 180 þúsund krónur. Ferðaþjónusta Vestmannaeyja krefur þá um rúmar 3,3 milljónir.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×