Innlent

Féll átta metra og slapp ómeiddur

Nítján ára gamall piltur féll af þaki þriggja hæðar blokkar í vesturbænum í síðustu viku. Fjórum dögum síðar gekk hann útaf sjúkrahúsinu óbrotinn. Hann segir fallið hafa aukið trú sína á guð, og vonast til þess að geta byrjað að boxa sem fyrst.

Hinn nítján ára gamli Ruslan Ansíferov er frá Kazakstan en hefur búið hér á landi í tvö ár. Hann vinnur hjá 66 gráðum norður á milli þess sem hann stundar hnefaleika af miklum krafti. Á þriðjudaginn í síðustu viku kom hann heim til sín í þessa þakíbúð á Vesturgötunni en uppgötvaði þá

Ég hafði gleymt lyklunum og reyndi því að klifra upp á svalirnar hjá mér. Ég mundi eftir því að svaladyrnar voru opnar og vildi því freistast til að komast þar inn. En það var mjög hált og ég féll niður," segir Ruslan.

Fallið er nokkuð hátt, um átta metrar, og man Ruslan lítið eftir að hann lenti. Hann tók þó upp símann og hringdi í vin sinn sem hélt hann væri að grínast.

Nágranni sem fréttastofa ræddi við í dag segist haf heyrt þegar Ruslan féll af þakinu, og skömmu síðar dreif að fólk úr húsinu og sjúkrabíll mætti á vettvang.

Þegar upp á sjúkrahús var komið var ljóst að Ruslan hafði ekki brotið eitt einasta bein í líkamanum, og læknarnir voru hissa.

„Þeir sögðu þetta vera undravert. Margir læknar skoðuðu mig og sögðu það. Undravert."

Hann segir að líklega sé þetta nokkurskonar kraftaverk og hann trúi meira á guð eftir atvikið.

Ruslan var á sjúkrahúsi í 4 daga og fékk þá að ganga heim til sín. Hann þarf hinsvegar að taka því rólega næstu 6-7 vikurnar vegna bakmeiðsla. Hann getur þó ekki beðið eftir því að geta farið aftur í hringinn.

En hvað ætlar hann að gera ef hann gleymir lyklunum aftur?

Ég mun aldrei klifra aftur upp á þak. Það er öruggt. Ég hringi bara í sérstaka þjónustu sem kemur og opnar," segir hann að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×