Innlent

„Lítur út fyrir að Ísland sé hinn fullkomni staður fyrir glæpi"

Boði Logason skrifar
Aríel Jóhann segir að konan sem stal veskinu hans hafi verið í hvítri úlpu. Hún náðist á öryggismyndavél Kringlunnar.
Aríel Jóhann segir að konan sem stal veskinu hans hafi verið í hvítri úlpu. Hún náðist á öryggismyndavél Kringlunnar.
„Ég vona að þú skammist þín," skrifar Aríel Jóhann Árnason, 21 árs námsmaður og nýbakaður faðir, í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir frá því að á Þorláksmessu hafi hann farið í Kringluna og þar hafi veskinu hans verið stolið. Öryggismyndavélar náðu mynd af þjófinum, sem Aríel segir vera konu í hvítri úlpu.

Hann segist hafa lagt veskið frá sér á afgreiðsluborði í um það bil eina mínútu og á þeim tíma hafi konan tekið veskið. Í veskinu hafi verið útskriftarpeningar hans úr stúdentsveislu hans sem og skírnarpeningar nýfædds sonar hans. Í veskinu hafi verið gjafakort frá Kringlunni og hafi konan eytt helmingnum af innistæðunni, áður en hann náði að loka kortinu. Öryggismyndavélar Kringlunnar náðu mynd af konunni en öryggisverðir Kringlunnar náðu ekki handsama konuna.

„Það lítur út fyrir að Ísland sé hinn fullkomni staður fyrir glæpi, grandalausir íbúar, vægar refsingar fyrir þjófnað, kynferðisglæpi og morð, og ömurleg öryggisgæsla á almenningstöðum. Ekki furða að Hell's Angels vilji koma hingað, þetta er paradís glæpamannsins og ég verð að viðurkenna að mér líður eins og ég sé á örlítið rangri hillu að taka þetta ekki bara að mér," skrifar Aríel.

Í lok greinarinnar vonast hann til þess að konan skammist sín. „Í jólaandanum þá vona ég að þú vitir að ég heiti Aríel, ég er fátækur námsmaður á tuttugasta og fyrsta ári, sonur minn varð 6 vikna gamall í gær og vantar bleyjur og föt. Ég vona að þú áttir þig á því að þú stalst frá honum, og ég hef aldrei upplifað neitt jafn ómerkilegt og lágkúrulegt. Ég vona að þú skammist þín."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×