Erlent

Þurfa ekki lengur að ljúga í hernum

Barack Obama undirritar lögin að viðstöddum leiðtogum demókrata á þingi, þeim Nancy Pelosi og Harry Reed.fréttablaðið/AP
Barack Obama undirritar lögin að viðstöddum leiðtogum demókrata á þingi, þeim Nancy Pelosi og Harry Reed.fréttablaðið/AP
Barack Obama Bandaríkjaforseti efndi eitt af kosningaloforðum sínum í gær þegar hann undirritaði lög sem afnema bann við því að samkynhneigðir hermenn í Bandaríkjaher tjái sig opinskátt um kynhneigð sína.

„Þessi dagur er kominn,“ hrópaði Mike Almy og fór ekki dult með ánægju sína. Hann var majór í flughernum þar til fyrir fjórum árum, þegar hann var rekinn eftir að upp komst um kynhneigð hans. „Nú þarf ekki lengur að lifa í lyginni.“Yfirmenn varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna vara þó við því að menn fagni of snemma. Enn á yfirstjórn hersins eftir að setja reglur um framkvæmd nýju laganna, auk þess sem hún þarf að staðfesta að breyttu reglurnar hafi engin áhrif á getu hersins þegar á reynir.

Meðal annars segir varnarmálaráðuneytið nauðsynlegt að huga að kostnaði við fræðslu um samkynhneigð, sem veita þurfi hermönnum, auk þess sem skipuleggja þurfi hvernig taka eigi á samkynhneigð þegar svefnplássi í herskálum er úthlutað.

Þótt það ferli geti allt saman tekið fleiri mánuði, enda hefur yfirstjórn hersins ekkert verið að flýta sér í þessu máli, þá marka nýju lögin engu að síður tímamót í sögu samkynhneigðra í Bandaríkjunum.

Frá því að Bill Clinton var forseti hefur samkynhneigðum verið leyft að gegna herþjónustu, en þó því aðeins að þeir segi engum frá kynhneigð sinni. Á móti fengu þeir tryggingu fyrir því að yfirmenn í hernum myndu ekki spyrja þá um kynhneigðina.

Þetta átti að vera málamiðlun milli Clintons og yfirstjórnar hersins, sem var treg í taumi til að leyfa breytingar. Þessi málamiðlun var frá fyrsta degi þyrnir í augum samkynhneigðra enda viðhélt hún í reynd banni við samkynhneigð í hernum.

Barack Obama getur líka fagnað því að hafa náð þessu máli fram á síðustu dögum þingsins þetta árið. Strax eftir áramót kemur saman nýtt þing, sem kosið var í nóvember síðastliðnum, og þá missa demókratar meirihluta sinn í fulltrúadeild.

Allt bendir til þess að honum muni á allra næstu dögum einnig takast að fá þingið til að samþykkja nýjan samning við Rússland um fækkun kjarnorkuvopna.

- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×