Innlent

Helga og Bedi fái makleg málagjöld

Roger Davidson. Vickram Bedi stendur við hlið hans
Roger Davidson. Vickram Bedi stendur við hlið hans

Meint fórnarlamb svikamyllu Helgu Ingvarsdóttur og Vickrams Bedi segist hafa orðið fyrir barðinu á „margbrotnu ráðabruggi svikahrappa af verstu sort". Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hinn svikni sendi frá sér í gær. Hann hafði fram að því verið þögull og ekki látið fjölmiðla ná í sig.

Fórnarlambið heitir Roger Davidson og er vellauðugur djasspíanisti og erfingi olíurisa. Hann mun hafa greitt parinu um 20 milljónir dollara á sex ára tímabili fyrir að vernda tónlist hans fyrir hondúrískum tölvuvírus og líf hans fyrir valdasjúkum pólskum prestum úr Opus Dei-reglunni.

Parið er grunað um að hafa kokkað upp söguna til að féfletta Davidson en Bedi hefur þvertekið fyrir það og sagt Davidson ofsóknaróðan.

Davidson segir í yfirlýsingu sinni að Bedi og Helga séu ekki hefðbundnir tölvuviðgerðarmenn, heldur hafi þau vingast náið við hann í því skyni að svíkja af honum stórfé. Hann kveðst vera samvinnuþýður við saksóknaraembættið í Westchester í von um að fólkið fái makleg málagjöld og hann endurheimti hugsanlega hluta fjárins. Að lokum biður Davidson um frið á erfiðum tímum.

Helga og Bedi sitja í fangelsi ytra. Réttarhöld í málinu hefjast 2. desember.- sh








Fleiri fréttir

Sjá meira


×