Innlent

Þorskstofninn að styrkjast

Rannsóknir sýna stækkandi þorskstofn. fréttablaðið/jse
Rannsóknir sýna stækkandi þorskstofn. fréttablaðið/jse
Niðurstöður úr haustralli Hafrannsóknastofnunar eru jákvæðar og vísbendingar um að þorskstofninn sé að braggast verulega. Ýsustofninn er hins vegar innan við helmingur þess sem hann var 2004.

Heildarvísitala þorsks hækkaði um rúm tuttugu prósent frá árinu 2009. Er vísitalan sú hæsta frá 1996 er farið var í fyrstu stofnmælinguna. Hækkun vísitölunnar í fjölda er í góðu samræmi við áætlanirnar frá því í vor, en þyngdaraukning er aðeins meiri en áætlað hafði verið.

Heildarvísitala ýsu lækkaði um 25 prósent frá árinu 2009 og er nú um 45 prósent af því sem hún var árið 2004 þegar hún var hæst. Vísitalan er svipuð og árin 1996-2001. Fyrstu mælingar á árganginum frá 2010 benda til að hann sé slakur og sá lakasti frá 1996. Er það þriðji slaki ýsuárgangurinn í röð.

Niðurstöður mælingarinnar eru mikilvægur þáttur árlegrar úttektar Hafrannsóknastofnunarinnar á ástandi nytjastofna við landið. Þar vega ekki síður þungt upplýsingar um aldurssamsetningu afla og aflabrögð fiskiskipa á árinu, stofnmælingar þorsks á hrygningartíma í netaralli og síðast en ekki síst stofnmæling botnfiska í mars, eða í svokölluðu togararalli.

- shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×