Erlent

Biðja um 490 milljarða fyrir Haítí

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það kostar um 1000 milljarða íslenskra króna að byggja upp Haítí eftir skjálftann. Mynd/ AFP.
Það kostar um 1000 milljarða íslenskra króna að byggja upp Haítí eftir skjálftann. Mynd/ AFP.
Sameinuðu þjóðirnar munu í þessari viku biðja þjóðir heims um að veita næstum 490 milljarða íslenskra króna til að fjármagna enduruppbyggingu í Haítí eftir jarðskjálftann í janúar.

Gert er ráð fyrir að fulltrúar frá 100 ríkjum verði viðstaddir sérstaka góðgerðarráðstefnu sem fram fer á miðvikudag. Gestgjafar á ráðstefnunni verða Rene Preval, forseti Haítí, Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna og Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Skipuleggjendur ráðstefnunnar telja að hún leiki grundvallarhlutverk í endurreisn Haítí. Áður en skjálftinn skók landið þann 12. janúar síðastliðinn var Haítí eitt fátækasta land í heimi.

Búist er við því að enduruppbygging í Haítí muni kosta um átta milljarða dollara eða röska þúsund milljarða íslenskra króna. Það er um 120% af landsframleiðslu Haítí.

Það var Danmarks Radio sem greindi frá þessu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×