Innlent

Markarfljót fært til að bjarga Landeyjahöfn

Ósar Markarfljóts verða færðir tvo kílómetra til austurs, samkvæmt aðgerðum sem samgönguráðherra samþykkti í dag til að bjarga Landeyjahöfn.

Aðgerðirnar, sem fulltrúar Siglingastofnunar lögðu til og ráðherra féllst á, eru í þremur liðum: Semja á við Íslenska gámafélagið á grundvelli tilboðs þess um að dýpka höfnina. Í öðru lagi á í samvinnu við Eyjamenn að kaupa plóg sem Lóðsinn í Vestmannaeyjum noti til að draga efni út úr innsiglingu Landeyjahafnar. Fullyrt er að með slíkum plógi megi halda höfninni opinni eftir minni veður.

Þriðja og róttækasta aðgerðin er að færa ósa Markarfljóts austur um tvo kílómetra. Það verður gert með því að reisa tveggja kílómetra langan flóðvarnagarð, sem verður tveir og hálfur metri á hæð, en með færslu fljótsins fjær höfninni er vonast til að sandburður minnki inn í hana.

Heildarkostnaður við þessar aðgerðir er áætlaður um 180 milljónir króna í vetur, en það er sama fjárhæð og áður var búið að gera ráð fyrir í frumvarpi til fjáraukalaga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×