Innlent

Tvítugur á felgunni

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tókst í morgun að stöðva för ölvaðs ökumanns eftir talsverða eftirför um höfuðborginna.

Það var á Hringbraut um klukkan sjö sem lögreglumenn tóku eftir einkennilegu aksturslagi ökumanns. Maðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu heldur gaf allt í botn. Svo mikill var glæfraakstur hans að á Sæbraut mældist hann á 120 kílómetra hraða þótt hann hefði misst annað framhjólið undan bílnum í atganginum.

Þar tókst lögreglu hins vegar að stöðva för hans á giftusamlegan hátt með því að aka utan í bíl ökuníðingsins.

Að sögn varðstjóra tókst lögreglumönnum svo vel til að vart sá á bílunum á eftir en þó tókst að hindra för mannsins og koma þar með í veg fyrir frekari hættu af hans völdum. Ökufanturinn er grunaður um ölvun og verður yfirheyrður seinna í dag. Hann er talinn vera um tvítugt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×