Innlent

Almenningur hvattur til að láta ljós sitt skína

Hápunktur söfnunarinnar er sjónvarpsútsending á Stöð 2 og Vísir.is 3. desember.
Hápunktur söfnunarinnar er sjónvarpsútsending á Stöð 2 og Vísir.is 3. desember.
Í tengslum við söfnunarátak UNICEF, Dag rauða nefsins, er almenningur hvattur til að láta ljós sitt skína. Hver sem er getur keypt sér nef, tekið upp fyndið myndband og skemmt sér og öðrum, að því er fram kemur í tilkynningu.

UNICEF á Íslandi hélt Dag rauða nefsins í fyrsta skipti árið 2006 og svo aftur árið 2009. Hann verður því haldinn í þriðja skiptið hérlendis föstudaginn 3. desember. Dagurinn gengur út á að beita gríni og spé til að safna fé í þágu bágstaddra barna um allan heim. Hápunktur söfnunarinnar er sjónvarpsútsending á Stöð 2 og Vísir.is, föstudaginn 3. desember, þar sem landslið leikara og skemmtikrafta mun koma saman, skemmta landanum og hvetja fólk til að skrá sig sem heimsforeldrar. Í aðdraganda dagsins eru seld rauð trúðanef til styrktar verkefnum UNICEF.

„Almenningur getur tekið þátt í Degi rauða nefsins án þess að kosta miklu til. Umfram allt gengur dagurinn út á að hafa gaman og gera grín," segir í tilkynningunni. „Því ekki að gera myndband með þínu nefi?"

Leikhópurinn 16 elskendur ríður á vaðið með myndböndum sem tengjast jólunum. Öll myndböndin má sjá á www.youtube.com/unicefisland eða á www.rauttnef.is. Borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, mun sömuleiðis taka þátt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×