Innlent

Rannsókn Íslendinga á eldgosunum vekur heimsathygli

Eldgosin í vor á Fimmvörðuhálsi og í toppgíg Eyjafjallajökuls voru í raun tvö eldgos og það fyrra hleypti hinu síðara af stað. Þetta eru niðurstöður íslenskra vísindamanna sem eitt virtasta vísindatímarit heims, Nature, birtir á forsíðu á morgun, en þær eru taldar varpa nýju ljósi á hegðun eldfjalla sem sjaldan gjósa á jörðinni.

Mælanet hefur gefið Íslendingum færi á að vakta Eyjafjallajökul um árabil og að rekja upphaf eldsumbrotanna átján ár aftur í tímann. Með hjálp gervihnattamælinga hefur nú tekist að kortleggja nákvæmlega hvernig kvikan hreyfðist undir eldstöðinni, að sögn Freysteins Sigmundssonar jarðeðlisfræðings.

Athygli vekur að miðja kvikusöfnunar var undir Skógaheiði. Gögnin sýna að mánuðina fyrir gosið á Fimmvörðuhálsi myndaðist mikið kvikuinnskot þar undir. Sú kvika snerti síðan aðra tegund kviku á um fjögurra kílómetra dýpi og setti af stað nýtt eldgos í toppgígnum.

"Þegar innskotið komst í snertingu við aðra kviku, - það hleypti sprengigosinu af stað," segir Freysteinn.

Birting tímaritsins Nature á niðurstöðunum þykir viðurkenning á því að þær varpi nýju ljósi á hegðun eldfjalla sem sjaldan gjósa á jörðinni.

En er eldgosinu lokið?

Já, svarar Freysteinn, og segir að líta verði svo á að þetta hafi verið tvö eldgos; eldgos á Fimmvörðuhálsi og eldgos í toppgíg Eyjafjallajökuls og því hafi lokið seinnipartinn í maí.

"Ef virkni tekur sig upp aftur yrði það þriðja eldgosið í þessari röð atburða," segir Freysteinn.  

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×