Innlent

Gefa salernisrúllur

Þórður Kárason, framkvæmdastjóri Papco, (í miðið) naut aðstoðar jólasveinsins við að afhenta starfsmanni Fjölskylduhjálparinnar pappír.
Þórður Kárason, framkvæmdastjóri Papco, (í miðið) naut aðstoðar jólasveinsins við að afhenta starfsmanni Fjölskylduhjálparinnar pappír.

„Taktu þátt í að gefa gjöf“ heitir styrktarherferð íslenska hreinlætispappírsframleiðandans Papco nú fyrir jólin. „Ein rúlla af hverri seldri pakkningu af hreinlætispappír í jóla­umbúðum frá Papco rennur til góðgerðamála,“ segir í tilkynningu fyrirtækisins, en það styrkir Hjálparstofnun kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd, Rauða krossinn og Fjölskylduhjálpina.

Haft er eftir Þórði Kárasyni, framkvæmdastjóra Papco, að fyrir­tækið geri ráð fyrir að gefa 20 þúsund salernisrúllur til góðgerðamála. „Og erum þegar búin að afhenta um helminginn. Okkar viðskiptavinir, bæði einstaklingar og fyrirtæki, hafa tekið mjög vel í þessa styrktarherferð og með því að fara þessa leið geta allir lagt sitt af mörkum og gjöfin verður veglegri,“ segir hann.

Þá er í tilkynningu fyrirtækisins haft eftir Ásgerði Jónu Flosadóttur, formanni Fjölskylduhjálpar Íslands, að Papco hafi veitt Fjölskylduhjálpinni ómetan­legan stuðning allt frá stofnun samtakanna fyrir átta árum. Söfnun Papco stendur út desember, en auk styrktarherferðarinnar er fyrirtækið sagt hafa aukið stuðninginn við Fjölskylduhjálpina enn frekar með auknu vöruframlagi til samtakanna. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×