Innlent

Biskup Íslands: Rangt að tala um ríkisrekna kirkju

Valur Grettisson skrifar
Karl Sigurbjörnsson.
Karl Sigurbjörnsson.

Kirkjuþing var sett í morgun í Grensáskirkju. Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, hélt setningaræðu og fór víða í henni en uppbygging samfélagsins, grunngildi og von var efni ávarpsins. Hann sagði meðal annars að það væri rangt að tala um að hér væri ríkisrekin kirkja.

„Þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag sem nýtur sérstöðu og er í sérstöku sambandi og samstarfi við ríkið og það samstarf og samskipti taki breytingum og þróist í samræmi við samfélagsþróunina," sagði Karl í ræðu sinni.

Þá ræddi Karl um væntingar og traust og minnti á að þjóðarpúls birtist líka í þátttöku í starfi og væntingum til þjónustu kirkjunnar og atbeina í samfélaginu.

„Starf og þjónusta þjóðkirkjunnar nær til landsmanna allra til ystu nesja og innstu dala. Hið þétta og víðtæka samfélagsnet sem þjóðkirkjan myndar í íslensku þjóðfélagi mótar þjóðarvefinn og menninguna meir en okkur er alla jafna ljóst.

Á þriðja hundrað söfnuðir þjóðkirkjunnar starfa um land allt, þar sem á annað þúsund manns sitja í sóknarnefndum, þúsundir syngja í kirkjukórum og barnakórum kirknanna. [..]Þjóðkirkjan er víðfeðm og fjölbreytt almannahreyfing."

Karl greindi frá nýrri könnun um traust til safnaða og presta sem gerð var af Capacent og sýnir að traust til kirkjunnar er meira í nærsamfélaginu en til stofnunarinnar. Samkvæmt henni sækja Íslendingar að meðaltali kirkju fjórum sinum á ári vegna ýmissa athafna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×