Innlent

Hægt að semja en pólitíkin ræður

Lárus Blöndal
Lárus Blöndal
Lárus Blöndal hæstaréttar­lögmaður var tilnefndur af stjórnarandstöðunni í Icesave-samninganefndina. Hann hefur haldið formönnum stjórnarandstöðuflokkanna upplýstum um framvindu viðræðnanna en segir ekkert stórvægilegt hafa gerst í málinu síðustu daga, hvorki gagnvart erlendu viðsemjendunum né á innanlandsvettvangi.

„Það eru ágætar líkur á því að hægt sé að ná samningum og það veit stjórnarandstaðan að sjálfsögðu enda verið virkur þátttakandi í þessu ferli og haft mikil áhrif á gang mála. Það þarf hins vegar pólitískan vilja og samstöðu til að ljúka samningunum," segir Lárus. Viðræður sem staðið hafi með hléum frá því í febrúar hafi þokað málinu verulega fram veginn.

Frá upphafi hefur legið fyrir krafa Breta og Hollendinga um að sem víðtækust pólitísk sátt ríki um málið á Íslandi. Öðruvísi verði ekki samið enda kunni málið að fara í sama farveg og síðast þegar því var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Lárus er efins um að pólitíska landslagið sé þannig að hægt sé að ná fram lausn nú. „Það er ekki mikil eindrægni á þinginu og það markar auðvitað þann hraða sem er á málinu. Menn hafa ekki talið síðustu vikurnar að hægt sé að ná þeim samhljómi sem þarf til að ljúka þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×