Erlent

James Blunt neitaði að ráðast á Rússa

Óli Tynes skrifar
James Blunt.
James Blunt.

Breski söngvarinn James Blunt hefur skýrt frá því að hann hafi árið 1999 neitað að gera árás á Rússneska hermenn sem höfðu lagt undir sig flugvöllinn í Pristina, höfuðborg Kosovos.

Blunt var á þessum tíma liðsforingi í breska hernum. Mikil ringulreið var í Kosovo fyrst eftir að NATO sendi þangað landsveitir. Breskum herflokki hafi verið fyrirskipað að hertaka flugvöllinn í höfuðborginni, en þegar hann kom þar að höfðu um 200 rússneskir hermenn lagt hann undir sig.

Bandaríski hershöfðinginn Wesley Clark var æðsti yfirmaður NATO hersins í Kosovo og hann gaf skipun um að völlurinn skyldi tekinn af Rússum. Í viðtali við BBC í gær skýrði Blunt frá því að sveit hans hefði verið komin alveg að flugvellinum. Rússar hefðu staðið var fyrir og beint byssum sínum í átt til þeirra.

Sér hefði ekkert litist á blikuna þegar hann fékk beina skipun um að taka völlinn af Rússum. Hann kvaðst hafa heyrt talstöðvarsamskipti og þar hefðu verið notuð sterk orð eins og destroy, eða eyðileggja.

Blunt segir að hann hafi talið sig sjá fram á mikinn bardaga og ekki dottið í hug að ráðast á Rússana. Sem betur fer hafi svo yfirmaður bresku hersveitanna Mike Jackson skorist í leikinn. Hann hafi sagt orðrétt við Clark; Ég ætla ekki að láta mína hermenn hefja þriðju heimsstyrjöldina.

Jackson skipaði svo bresku hermönnunum að taka það rólega og taka sér stöðu umhverfis flugvöllinn. Eftir nokkra daga hafi Rússarnir verið búnir með birgðir sínar. Þá hafi þeir rölt yfir til Bretanna og spurt hvort þeir gætu ekki bara deilt með sér flugvellinum. Bretarnir jánkuðu því glaðlega og hættan var liðin hjá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×