Innlent

Ætla að brenna skíðaskála KR

Formaður stjórnar skíða­deildar segir sorglegt að gamli skálinn þurfi að hverfa en hann sé nú orðinn slysagildra.MYnd/Árni Rudolf Rudolfsson
Formaður stjórnar skíða­deildar segir sorglegt að gamli skálinn þurfi að hverfa en hann sé nú orðinn slysagildra.MYnd/Árni Rudolf Rudolfsson
Bera á eld að gömlum skíðaskála KR í Skálafelli. Ætlunin er að nota tækifærið til æfinga fyrir Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Byggingarfulltrúi frestaði afgreiðslu málsins í gær þar sem ekki lá fyrir umsögn Minjasafns Reykjavíkur. Skálinn var byggður af sjálfboðaliðum og vígður árið 1959. Hann tók þá við af skála sem reistur var 1938 en brann 1955 í eldsvoða. Var það skíðamönnum mikið áfall. Reykjavíkurborg tók yfir skíðasvæðin í Skálafelli árið 1990. „Þá tók borgin líka yfir lyftuna við skálann og rekstrargrundvöllur hans hvarf þá fljótlega, sérstaklega þegar ekkert er búið að hugsa um Skálafell í öll þess ár,“ segir Anna Laufey Sigurðardóttir, formaður Skíðadeildar KR. Langt sé síðan skálinn hafi orðið utanveltu og hann sé nú algerlega ónýtur. „Þetta er voðalega sorglegt því þetta er afar fallegur skáli en grunnurinn er ónýtur og skálinn er bara slysagildra í dag,“ segir Anna, sem kveður slökkviliðsmenn hafa verið lagða af stað upp í Skálafell í lok október til að kveikja í skálanum en á síðustu stundu hafi komið í ljós að tilskilin leyfi skorti.- gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×