Innlent

Segir lífeyrissjóðina fegra kostnaðartölur

Nú er starfandi 31 lífeyrissjóður. Landsmenn greiða þó ekki í þá alla, sumir taka ekki við nýjum sjóðfélögum og munu því leggjast af á næstu árum.fréttablaðið/Vilhelm
Nú er starfandi 31 lífeyrissjóður. Landsmenn greiða þó ekki í þá alla, sumir taka ekki við nýjum sjóðfélögum og munu því leggjast af á næstu árum.fréttablaðið/Vilhelm
Lífeyrissjóðirnir fegra kostnaðartölur sínar með því að reikna umsýslu­kostnað vegna fjárfestinga erlendis ekki inn í rekstrarkostnað, segir Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í VR. Hann segist áætla að rekstrar­kostnaður allra íslensku lífeyrissjóðanna í fyrra hafi verið á níunda milljarð króna.

Þessu mótmælir Hrafn Magnús­son, framkvæmdastjóri Lands­samtaka lífeyrissjóða, harðlega. Hann segir rekstrarkostnaðinn um 3,8 milljarða króna, reiknaðan með sömu aðferðum og í Danmörku.

„Ég er sannfærður um að það er hægt að hagræða gríðarlega í lífeyris­sjóðakerfinu,“ segir Ragnar. Hann vill að lífeyris­sjóðum verði fækkað verulega og að sjóðs­félagar fái að kjósa stjórnar­menn.

Ragnar hefur birt útreikninga á rekstrarkostnaði lífeyris­sjóðanna á vefsíðu sinni. Þar leggur hann saman rekstrar­kostnað sex stærstu lífeyris­sjóðanna út frá árs­reikningum sjóðanna í fyrra. Út frá því hefur hann áætlað að uppgefinn rekstrar­kostnaður allra sjóðanna sé um 3,3 milljarðar króna á ári.

Þetta er þó aðeins hluti raunverulegs rekstrarkostnaðar sjóðanna, segir Ragnar. Með réttu ætti að bæta við þetta erlendum fjárfestingargjöldum, sem er kostnaður vegna verðbréfamiðlara sem sýsla með erlend verðbréf sjóðanna. Ragnar segir að sá kostnaður hafi að lágmarki verið um fimm milljarðar króna í fyrra.

Landssamband lífeyrissjóða hefur bent á að rekstrarkostnaður íslensku lífeyrissjóðanna sé lágur í samanburði við kostnað við lífeyris­kerfin í öðrum ríkjum OECD, þegar miðað sé við kostnað sem hlutfall af heildareignum. Ragnar segir þetta ekki alls kostar rétt. Á vefsíðu sinni bendir hann á að sé kostnaður við fjárfestingar erlendis talinn með sé kostnaðurinn töluvert langt frá því að vera lægstur innan ríkja OECD, „nema þau beiti sambærilegum brellum til að fegra kostnað við kerfið“.

Hrafn hafnar því alfarið að brellum sé beitt. Kostnaður við fjárfestingar erlendis sé dreginn af tekjunum eins og alltaf hafi verið gert. Hann segist aðspurður ekki hafa upplýsingar um hversu mikill sá kostnaður sé.

Rekstrarkostnaður íslenskra lífeyrissjóða var rétt um 0,2 prósent af heildartekjum sjóðanna í fyrra og hefur verið óbreyttur undan­farin ár, segir Hrafn. Eignirnar í fyrra voru um 1.830 milljarðar en rekstrarkostnaður 3,8 milljarðar.

Hann bendir á að sérfræðingar OECD kjósi að nota þetta hlutfall sem mælikvarða á lífeyrissjóðina, ekki lífeyrissjóðirnir sjálfir.

brjann@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×