Innlent

Skerðing kennslu er síðasta úrræðið

Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir

Unnið er að því að greina kostnað við grunnskólahald, en hann er nokkuð hærri á Íslandi en í viðmiðunarlöndunum í OECD. Er reiknað með að niðurstöður liggi fyrir í næstu viku.

Sveitarfélögin, sem reka grunnskólana, standa frammi fyrir átta milljarða tekjusamdrætti á næsta ári. Vilja þau spara í skólastarfinu, en helmingur gjalda þeirra rennur til þess.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir farið verða yfir málið þegar greiningin sé afstaðin.

Fækkun kennslustunda er meðal sparnaðar­hugmynda sveitarfélaganna. Katrín er ekki hrifin af þeirri leið. „Ég hef litið á það sem síðasta úrræði að skerða kennslutíma barna," segir hún.

Spjótin standa einnig á framhaldsskólunum. Spara þarf í rekstri þeirra um fimm prósent.

Kennarar og stúdentar hafa mótmælt áformunum og sagt að þegar hafi verið sparað svo mikið að komið sé að þolmörkum.

Katrín segir framhaldsskólana ekki hafa verið ofalda í gegnum árin.

„Það er ekki af miklu að taka enda búið að ganga að öllu sem hugsanlega er hægt að tala um sem viðbót."

Niðurskurðurinn á þessu ári nam einnig fimm prósentum. Katrín segir að hans sjái merki í skólastarfinu. Kennsluframboð sé minna og yfir- og aukavinna kennara hafi minnkað.

Fjárlaganefnd og menntamálanefnd hafa verið kynnt áhrif niðurskurðarins á skólastarfið. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×