Erlent

Ástralir flykkjast á jólaútsölur

Útsölur. Myndin er úr safni.
Útsölur. Myndin er úr safni.

Það er stór dagur í dag fyrir verslunarglaða í hinum enskumælandi heimi en í dag er boxing day - þá hefjast jólaútsölur.

Þúsundir kaupglaðra Ástrala söfnuðust til að mynda saman fyrir utan verslunarmiðstöðvar í morgun til að verða fyrstir á jólaútsöluna.

Í Sydney höfðu myndast langar raðir fyrir utan helstu verslanir í morgun en sumar verslanir opnuðu á fremur ókristilegum tíma, eða klukkan fimm í morgun.

Nokkrir höfðu beðið í röð frá því jóladagskvöldi. Smásalan í Ástralíu hefur ekki náð sömu hæðum og fyrir kreppu en kaupmenn vonast til að Ástralar eyði um sex milljörðum ástralskra dala eða sem jafngildir um sjö hundruð milljörðum íslenskra króna.

Í Bretlandi vonast smásalar eftir því að sölumet verði slegið í ár á jólaútsölunni. Vonir þeirra gætu þó orðið að engu en mikill kuldi er í Bretlandi og starfsmenn neðanjarðarlestanna eru í sólarhrings verkfalli sem hófst á miðnætti.

Samgöngur eru því í lamasessi.

Þrátt fyrir þetta mynduðust víða raðir í morgun enda afslátturinn allt að 70%. Fólk verður þó að hafa hraðar hendur því samkvæmt breskum lögum mega flestar verslanir aðeins vera opnar í sex klukkustundir í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×