Innlent

Fimleikastelpurnar gætu fengið fálkaorðuna

Ingimar Karl Helgason skrifar
Orðunefnd mun á næstunni ræða hvort Gerplukonum, sem urðu Evrópumeistarar í hópfimleikum á dögunum, verði veitt fálkaorðan. Þeim var fagnað í heimabænum Kópavogi í dag.

Gerplukonur unnu frækilegan sigur á Evrópumótinu í hópfimleikum og braut þar með blað í fimleikasögu landsins. Og þetta er ekki bara fimleikasagan, heldur íslenska íþróttasagan,. því aldrei fyrr hefur íslenskt íþróttalið unnið til gullverðlauna á Evrópumóti í meistaraflokki, í nokkurri grein.

Sigurinn var afgerandi því þær hlutu hæstu einkunn á öllum áhöldum á mótinu.

Gerplukonur eru nýkomnar til landsins frá Svíþjóð. Kópavogsbær og ríkisstjórnin heiðruðu þær á samkomu í Gerðarsafni síðdegis.

Þegar íslenska karlalandsliðið í handbolta vann til silfurverðlauna á ólympíuleikum, þá var þeim veitt fálkaorðan. Hún er alla jafna veitt á nýjársdag og sautjánda júní. En í tilviki handboltalandsliðsins, var orðan veitt á öðrum tíma; segja má, í hita leiksins.

Fréttastofa hafði samband við Ólaf G. Einarsson, formann Fálkaorðunefndar. Hann tjáði okkur að ekki hefði verið rætt hvort Gerplukonum yrði veitt fálkaorða fyrir afrekið. Hins vegar yrði nefndin kölluð saman í næstu viku eða þar næstu. Þar yrði vafalaust rætt hvort það yrði gert.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×