Erlent

Eiginkonan rak hann út í hryðjuverk í Stokkhólmi

Óli Tynes skrifar
Lík Taimurs Abdulwahabs í Drottningargötu.
Lík Taimurs Abdulwahabs í Drottningargötu.

Amma eiginkonu sprengjumannsins í Stokkhólmi segir að það hafi verið eiginkonan sem hrakti hann út í hryðjuverk. Eiginkonan heitir Mona Thwany. Amma hennar Maria býr í Rúmeníu. Hún sagði í samtali við breska blaðið Daily Mail að um það bil sem árásin var gerð á Bandaríkin árið 2001 hafi Mona orðið ofstækisfullur múslimi. Taimur Abdulwahab er upprunninn í Írak en bjó í Svíþjóð í mörg ár. Amman segir að hann hafi verið vestrænn í hugsunarhætti en eiginkonan hafi breytt honum.

Mona gat stöðvað hann

Orðrétt sagði amman við breska blaðið: „Mona breytti eiginmanni sínum í öfgasinna. Þetta er henni einni að kenna. Mona hafði valdið til þess að stöðva hann, en hún neitaði því. Hún hefði átt að vita betur.

Sænska lögreglan þykist fullviss um að Abdulwahab hafi fengið aðstoð við hið misheppnaða tilræði sitt. Það byggir hún einkum á tvennu. Í fyrsta lagi fannst skammdræg talstöð við lík hans. Í öðru lagi las hann inn skilaboð bæði á sænsku og ensku um ástæður tilræðisins. Á annarri upptökunni má heyra einhvern hósta í bakgrunninum og er talið víst að það hafi verið samsærismaður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×