Innlent

Þetta er bara kjaftæði

Forstjóri verktakafyrirtækis gefur lítið fyrir yfirlýsingar um að stutt sé í stórframkvæmdir í vegagerð. Sá söngur hafi heyrst of oft. Hann segir ríkið stuðla að gjaldþrotum verktaka með því að taka tilboðum langt undir kostnaði.
Forstjóri verktakafyrirtækis gefur lítið fyrir yfirlýsingar um að stutt sé í stórframkvæmdir í vegagerð. Sá söngur hafi heyrst of oft. Hann segir ríkið stuðla að gjaldþrotum verktaka með því að taka tilboðum langt undir kostnaði. Mynd/Anton

„Þetta er bara kjaftæði. Það er búið að segja þetta svo oft."

Þetta eru viðbrögð Hilmars Konráðssonar, forstjóra Magna verktaka, við tíðindum um að vegagerð fyrir tugi milljarða sé í sjónmáli.

Í Fréttablaðinu á miðvikudag var greint frá góðum gangi í viðræðum lífeyrissjóðanna og ríkisins um fjármögnun vegaframkvæmda.

Hilmar segir ráðamenn hvað eftir annað hafa gefið mönnum í verktöku vonir um að eitthvað kynni að vera að fara af stað en aldrei hafi neitt gerst.

Meðal þeirra stórframkvæmda sem áformað er að ráðast í, gangi allt eftir, eru göng undir Vaðlaheiði. Hilmar telur þær ráðagerðir vitlausar við núverandi aðstæður. „Sú framkvæmd kostar mjög mikið en skapar fá störf, kannski fimmtíu. Það væri miklu nær að fara í fleiri smærri verkefni sem sköpuðu fleirum, segjum tvö þúsund manns, atvinnu."

Í byrjun árs sagði Hilmar í samtali við Fréttablaðið að ástandið í verktakabransanum væri skelfilegt. „Það er búið að ákveða að taka greinina af lífi," sagði hann þá. Nú, rúmum tíu mánuðum síðar, segir hann orð sín hafa staðist. „Flest þeirra fyrirtækja sem enn starfa væru komin í þrot ef ekki væri biðstaða í dómskerfinu um lögmæti fjármögnunar- og kaupleigusamninga. Lýsing og þessi fyrirtæki geta ekki rukkað okkur. Þess vegna er ekki meira hrun í þessum geira en raun ber vitni. En allir nema Ístak og ÍAV sem eru í eigu útlendinga eru komnir með neikvætt eigið fé."

Hilmar segir ástandið á markaðnum óheilbrigt; í þau örfáu verk sem boðin hafi verið út að undanförnu hafi tilboðum allt að 50 prósent af kostnaðaráætlunum verið tekið. Það segi sig sjálft að slíkt gangi ekki.

„Ríkið er í fararbroddi þeirra sem taka lægstu tilboðunum. Með því gersamlega stútar ríkið fyrirtækjum sem hugsanlega gætu lifað." Veikburða fyrirtæki bjóði í örvæntingu mjög lágt í verk en skynsamlega rekin fyrir­tæki fari ekki jafn lágt. Fyrir vikið verði þau af verkefnum og lognist á endanum út af.

Sjálfur horfir Hilmar fram á endalok eigin rekstrar. „Ég var með sextíu manns í vinnu en nú eru sex eftir og þeir hætta eftir áramót. Þrjátíu ára starf er ónýtt en ég græt það ekkert, það kemur dagur eftir þennan dag."

bjorn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×