Erlent

„We can do it“-konan látin

Fyrirmynd verkakonunnar á veggspjaldinu víðfræga með yfirskriftinni „We Can Do It!" lést á sunnudag, 86 ára að aldri. Konan hét Geraldine Hoff Doyle og hafði í fjóra áratugi ekki minnstu hugmynd um að hún hefði verið fyrirmyndin að veggspjaldinu.

Sautján ára gömul, í upphafi fimmta áratugarins, hóf Geraldine störf í málmblendiverksmiðju í Michiganfylki Bandaríkjanna. Ljósmyndari frá United Press International átti þangað erindi og tók mynd af Geraldine við vinnu sína. Ljósmyndina notaði síðan listamaðurinn J. Howard Miller til að gera veggspjald í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar með yfirskriftinni „We Can Do It!".

Geraldine endist þó ekki lengi í verksmiðjunni og hætti þar um viku eftir að myndin var tekin þar sem hún taldi starfið of hættulegt. Hún giftist síðar tannlækni og þegar Geraldine lést lét hún eftir sig fimm börn, átján barnabörn og 25 barnabarnabörn.

Aldrei sá hún veggspjaldið þar til hún blaðaði í tímariti árið 1982 og þekkti þar sjálfa sig. Dóttir Geraldine segir í samtali við The New York Times að andlitið hafi greinilega verið móður hennar þó vöðvarnir væru það ekki.

Veggmyndin naut síðar mikillar hylli femínista og hefur verið prentuð á ýmsa muni í gegn um áratugina.

Með því að smella á myndskeiðið hér að ofan má sjá stuttmynd um bandarískar verkakonur í seinni heimsstyrjöldinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×