Erlent

Þúsundir fögnuðu Aung San Suu Kyi

Heimir Már Pétursson skrifar
Aung San Suu Kyi.
Aung San Suu Kyi.

Aung San Suu Kyi leiðtogi Lýðræðisflokksins í Myanmar segist ætla að halda áfram að berjast fyrir mannréttindum og sátt meðal þjóðar sinnar. Þúsundir manna fögnuðu henni þegar hún kom í höfuðstöðvar flokksins í morgun.

Aung San Suu Kyi átti í erfiðleikum með að komast inn í höfuðstöðvar Lýðræðisflokksins í morgun vegna gífurlegs mannfjölda sem beið hennar fyrir utan húsið. Aðstoðarmenn hennar áttu fullt í fangi með að koma henni í gegnum mannfjöldann sem kallaði stuðningsorð til hennar.

Áður en hún ávarpaði stuðningsmenn sína í þröngum húsakynnum Lýðræðisflokksins, átti hún stuttan fund með sendimönnum erlendra ríkja. Í ávarpi sínu sagðist hún ætla að halda áfram baráttu sinni fyrir mannréttindum og virðingu fyrir lögum í landinu.

Þá vildi hún stuðla að því að sættir tækjust í þjóðfélaginu og hún sagðist ekki bera kala til herforingjastjórnarinnar sem haldið hafa henni í stofufangelsi í fimmtán ár af síðustu tuttugu og eina ári.

Suu Kyi þakkaði velunnurum sínum stuðninginn og hvatti fólk til að biðja fyrir þeim sem enn væru í haldi stjórnvalda. Enn á eftir að koma í ljós hvort Suu Kyi muni ögra herforingjastjórninni með fjöldafundum. En í þau fáu skipti sem hún hefur verið frjáls ferða sinna hefur mikill mannfjöldi safnast á útifundi hennar.

Talsmaður hennar segir að hún muni styðja að rannsókn fari fram á kosningum sem fram fóru í Myanmar fyrir viku þar sem augljóst þykir að brögð hafi verið í tafli. Lýðræðisflokkur Suu Kyi fékk ekki að bjóða fram og flokkur hliðhollur herforingjastjórninni vann stórsigur.

Ólíklegt er að herforingjunum takist að sætta almenning við kosningaúrslitin með því einu að gefa Suu Kyi frelsi. Hún mun ræða við fréttamenn síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×