Innlent

Barði fyrrverandi kærustu ítrekað með hnúajárni

Mynd úr safni
Karlmaður á fimmtugsaldri, Valur Sigurðsson, var í Héraðsdómi Suðurlands í dag dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir sérlega hættulega líkamsárás á fyrrverandi kærustu sína.

Valur játaði brot sín við fyrirtöku málsins. Hann var dæmdur fyrir að hafa slegið konuna hnefahöggi með hnúajárni í höfuð, ýtt henni í gólfið og slegið hana ítrekað með hnúajárni þar sem hún lá í jörðinni. Þá tók hann hana hálstaki og þrýsti upp að vegg þannig að henni sortnaði fyrir augum. Valur ýtti konunni ofan í baðkar og fékk hún þannig frekari áverka. Hún var mikið slösuð eftir árásina. Árásin var framin í september.

Valur var einnig dæmdur fyrir umferðarlagabrot og sviptur ökuréttindum ævilangt. Þá var hann dæmdur fyrir vörslu fíkniefna og gerð upptæk hjá honum tæp tíu grömm af kókaíni, tæp þrjú grömm af amfetamíni sem og hnúajárnið.

Maðurinn á að baki nokkurn sakaferil frá árinu 2001. Þar ber helst að nefna 20 daga fangelsi í Danmörku fyrir líkamsárás, 10 mánaða fangelsi í Vestre Landsret í Danmörku fyrir rán og 20 fangelsi fyrir flóttatilraun.

Hér á landi hefur hann einnig verið dæmdur fyrir ýmis hegningarlagabrot og umferðarlagabrot, þar á meðal að aka sviptur ökurétti og fyrir ölvun við akstur.

Val var gert að greiða fyrrverandi kærustu sinni rúmar 772 þúsund krónur í miskabætur. Lögmaður hennar hafði farið fram á rúmar 1,5 milljón í bætur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×