Innlent

Íbúðalánasjóður tæknilega gjaldþrota

Það stefnir í að ríkið þurfi að leggja Íbúðalánasjóði til 40 milljarða króna. Eiginfjárstaða sjóðsins nálgast núllið og svo virðist sem hann sé tæknilega gjaldþrota.

Í svari félags- og tryggingarmálaráðherra, við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar á Alþingi um stöðu Íbúðalánasjóðs, kemur fram að sjóðurinn hafi frá haustinu 2008 afskrifað 10 og hálfan milljarð vegna kaupa á skuldabréfum og vaxtaskiptasamninga og 325 milljónir hafi að auki tapast vegna peningamarkaðssjóða.

Þá má gera ráð fyrir að afskriftir vegna útlána verði í sögulegu hámarki næstu árin en nú þegar situr sjóðurinn uppi með um þúsund tómar eignir.

Eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs er 2 prósent en lögbundið lágmark fjármálastofnana er 8 prósent eiginfjárhlutfall. En þýðir þetta að Íbúðalánasjóður sé kominn í þrot.

„Þetta lítur mjög illa út, ég ætla ekki að hafa stór um það en ef eiginfjárstaðan er að nálgast núllið og það á eftir að afskrifa, sjá allir í hvað er að stefna," segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Stofnun eins og íbúðalánasjóður fer ekki í gjaldþrot eins og hver önnur sjoppa. Fjármunir skattgreiðenda verða látnir rétta hann við. Árni Páll Árnason viðskiptaráðherra staðfestir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn meti það sem svo að ríkissjóður þurfi að leggja Íbúðalánasjóði til á þriðja tug milljarða.

„Það hafa verið nefndar tölur allt upp í 40 milljarða króna, það er jafn mikið og íslenska menntakerfið á einu ári. Hér er verið að tala um gríðarlega stórar fjárhæðir," segir Guðlaugur Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×