Erlent

Ástkona Svíakóngs leysir frá skjóðunni

Óli Tynes skrifar
Camilla Henemark.
Camilla Henemark.

Ein af meintum ástkonum Svíakonungs hefur staðfest að þau hafi átt í ástarsambandi seint á níunda áratug síðustu aldar. Það gerir hún í samtali við sænska blaðið Expressen. Ástkonan heitir Camilla Henemark og er þekkt söngkona í Svíþjóð. Hún söng um skeið með hljómsveit sem hét Army of Lovers. Hún er eina konan sem er nafngreind í nýju bókinni um Karl Gústaf.

Camilla segir að hún hafi ekki gefið höfundum bókarinnar neinar upplýsingar um samband þeirra konungs. Höfundarnir eru blaðamenn. Hún segir að einn þeirra hafi haft samband við sig fyrir um tveim árum og óskaði eftir viðtali. Hún hafi haldið að ætlunin væri að ræða um hana og tónlist hennar. Þegar hún gerði sér grein fyrir að það átti að grafast fyrir um samband hennar og Karls Gústafs segist hún hafa gengið á dyr.

Ætlaði ekkert að tjá sig

Jafnvel eftir að bókin kom út segist hún hafa ætlað að þegja þunnu hljóði. Hún hafi ákveðið að svara eins og hún var viss um að kóngurinn myndi svara: No comment. Það hafi breyst eftir að konungur svaraði spurningum um málið á fundi með tugum fréttamanna. Hann eiginlega staðfesti að þetta hefði gerst.

Karl Gústaf sagði við fréttamenn eitthvað á þá leið að þetta væri löngu liðin tíð. Hann hafi rætt málið við fjölskyldu sína og þau hafi ákveðið að horfa fram á veginn. Eftir það segist Camilla hafa ákveðið að segja sína sögu. Og hún ber konungi afskaplega vel söguna.

Camilla Henemark er nú 46 ára gömul. Hún er fædd í Stokkhólmi árið 1965. Móðir hennar var sænsk en faðir hennar frá Nígeríu. Karl Gústaf Svíakonungur er fæddur 1946 og því átján árum eldri en söngkonan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×