Innlent

Rannsaka hvort biskupsmálið hafi verið þaggað niður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Karl Sigurbjörnsson er núverandi biskup Íslands.
Karl Sigurbjörnsson er núverandi biskup Íslands.
Nefnd sem mun rannsakað viðbrögð kirkjunnar við ásökunum á hendur Ólafi Skúlasyni um kynferðisbrot árið 1996 verður skipuð á Kirkjuþingi um helgina.

Samkvæmt upplýsingum frá Kirkjuþingi er nefndinni ætlað að leggja mat á hvort um mistök, vanrækslu eða vísvitandi þöggun eða tilraun til þöggunar hafi verið að ræða af hálfu vígðra þjóna og starfsmanna kirkjunnar, eða annarra þeirra sem gegnt hafa trúnaðarstörfum í þágu kirkjunnar. Tillagan gerir ráð fyrir að formaður nefndarinnar hafi hæfi sem hæstaréttardómari.

Fjölmörg önnur mál verða til umræðu á þinginu. Meðal annars frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga sem var upphaflega samþykkt á kirkjuþingi 2008 en náðist ekki að leggja það fram á Alþingi. Nú er það tekið upp á ný. Markmið frumvarpsins er að auka sjálfstæði kirkjunnar, einfalda löggjöf og færa ábyrgð og ákvarðanatöku í ríkara mæli til kirkjuþings.

Kirkjuþingið verður sett á laugardag klukkan níu. Á setningarfundi verður fjallað um hlutverk og stöðu þjóðkirkjunnar í siðvæðingu samtímans. Þar munu Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, Ögmundur Jónasson, ráðherra dóms- og mannréttindamála, og Stefán Einar Stefánsson, guðfræðingur og viðskiptasiðfræðingur, flytja ávörp.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×