Innlent

Ríkið tekur æ stærri skerf af bensínverði

Runólfur Ólafsson
Runólfur Ólafsson
Hver er hlutur ríkisins af hverjum seldum bensínlítra?

Þegar litið er aftur til desember 2008 á meðfylgjandi skýringarmynd má sjá að ríkið tók til sín 70 krónur af hverjum seldum lítra, og hefur því aukið sinn hlut um 34 krónur á lítrann, sem er nær 50 prósenta aukning.

Ef litið er til viðmiða Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), sem gera ráð fyrir að fjölskyldubíll eyði um 2.000 lítrum af bensíni, sést að þar er um að ræða aukna skattheimtu um 68.000 á hvern bíl á ári.

Frá hruni hafa bensíngjöld verið hækkuð fjórum sinnum. Fyrsta hækkunin varð í desember 2008 þegar vörugjöld voru hækkuð um rúmar fimm krónur á lítrann, en þeim var fylgt eftir með ríflegri hækkun vorið eftir þegar almennt bensíngjald hækkaði um 10 krónur á lítrann.

Í byrjun þessa árs voru svo almenn gjöld hækkuð á ný auk þess sem lagt var á kolefnisgjald, sem er 2,6 krónur á hvern lítra.

Þessar miklu skattahækkanir koma samhliða gríðarlegri hækkun á heimsmarkaðsverði bensíns og samanlögð áhrif af þessum tveimur þáttum eru undirliggjandi í þeim miklu hækkunum á útsöluverði undanfarna mánuði.

Enn er svo frekari skattahækkana að vænta um næstu áramót þar sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir 4 prósenta hækkun á bensíngjöldum og jafnframt verður kolefnisgjaldið hækkað upp í 3,9 krónur á lítrann. Það eru fjórar krónur á hvern lítra að minnsta kosti og telja má nær öruggt að þær hækkanir munu skila sér í hærra útsöluverði.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir í samtali við Fréttablaðið að um alvarlegt mál sé að ræða. „Þetta er nokkurs konar aðför að ákveðnum lífsgildum þar sem bíllinn gefur fólki fjölbreyttari möguleika á búsetu og atvinnu og er auk þess mikilvægt öryggistæki."

Runólfur segir FÍB einnig hafa bent á að hækkanir sem þessar geti í raun haft neikvæð áhrif á hagkerfið þar sem hærra bensínverð hefur í för með sér samdrátt í ferðalögum, og þar af leiðandi minni tekjur af ferðamennsku.

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×