Erlent

Skref aftur á bak fyrir Rússa

Mikhail Khodorkovsky.
Mikhail Khodorkovsky.

Vestrænir þjóðarleiðtogar gagnrýna harðlega niðurstöðu rússneskra dómstóla í máli auðjöfursins Mikhail Khodorkovsky og segja málið vekja upp fjölmargar spurningar um dómskerfið í Rússlandi.

Khodorkovsky, sem eitt sinn var á meðal auðugustu manna heims, afplánar nú þegar átta ára fangelsisdóm fyrir fjársvik og skattaundanskot. Hann gæti þurft að dúsa í fangelsi í sex ár til viðbótar eftir að hann var fundinn sekur um fjárdrátt í gær. Khodorkovsky hefur ávallt haldið því fram að ásakanir á hendur honum séu pólitísks eðlis en hann féll í ónáð hjá Vladímír Pútín, þáverandi forseta og núverandi forsætisráðherra, þegar hann styrkti stjórnarandstöðu landsins fjárhagslega.

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, telur ljóst að málið tengist Pútín og segir að það muni hafa neikvæð áhrif á ímynd Rússa. Í yfirlýsingu Hvíta hússins eru rússneskir dómstólar harðlega gagnrýndir. Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, segir dóminn skaða Rússland og skref aftur á bak fyrir landið. Þá segir William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, niðurstöðuna vekja upp fjölmargar spurningar um rússneska dómskerfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×