Innlent

Anna Lilja Gunnarsdóttir skipuð ráðuneytisstjóri

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Anna Lilja Gunnarsdóttir.
Anna Lilja Gunnarsdóttir.
Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra, hefur ákveðið að skipa Önnu Lilju Gunnarsdóttur í embætti ráðuneytisstjóra nýs velferðarráðuneytis sem verður til við sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis 1. janúar 2011.

Embætti ráðuneytisstjóra velferðarráðuneytisins var auglýst 28. september og rann umsóknarfrestur út 13. október. Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra, ákvað að fela þriggja manna hæfnisnefnd að fara yfir umsóknir um embættið og var nefndinni falið að skila ráðherra skriflegu mati á hæfni umsækjenda.

Í frétt á vef heilbrigðisráðuneytisins segir að hæfnisnefndin hafi metið fjóra úr hópi umsækjenda mjög vel hæfa, þau Önnu Lilju Gunnarsdóttur, Bolla Þór Bollason, Rögnu Árnadóttur og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur. Ragna Árnadóttir dró umsókn sína til baka en ráðherra kallaði hina umsækjendurna þrjá til viðtals og tók að því loknu ákvörðun um að skipa Önnu Lilju í embættið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×