Körfubolti

Benedikt: Menn gleyma því oft hvað þetta Hamarslið er hrikalega gott

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR.
Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR. Mynd/Anton
Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, tókst ekki að gera kvennalið að Íslandsmeisturum í Hveragerði í gær en KR-liðið fær annan möguleika á því í oddaleik á þriðjudaginn sem fram fer í DHL-höllinni.

KR-liðið byrjaði leikinn vel í gær og var komið með ellefu stiga forskot, 27-38, þegar sex mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum. Hamar náði þá 18-4 spretti og komst yfir í 45-42, fyrir hálfleik og hafði síðan frumkvæðið stærstan hluta seinni hálfleiksins.

„Við lendum í villuvandræðum og þurfum að breyta okkar leikskipulagi sem kom sér ekki vel. Þegar við fáum og erum að spila okkar sterku vörn þá tel ég okkur vera í þokkalegum málum," sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR eftir tapað á móti Hamar í Hveragerði í gær.

„Við þurftum að fara í eitthvað annað síðustu mínúturnar í fyrri og þá jafnaðist leikurinn. Fram að því voru þær í bullandi vandræðum að ná góðum skotum," sagði Benedikt.

KR-liðið átti möguleika á að vinna fyrsta Íslandsmeistaratitil kvennaliðs félagsins í átta ár en fær nú annan möguleika á þriðjudaginn.

„Við fáum bara lengra tímabil í staðinn. Við fáum þrjá daga til viðbótar, tvær æfingar og einn leik, og það er ekkert neikvætt við það," sagði Benedikt.

KR-liðið er á heimavelli í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn en Benedikt vann titill með karlaliðinu í fyrra eftir að hafa unnið Grindavík í oddaleik.

„Það verður rosa leikur. Þetta eru tvö frábær lið og menn gleyma því oft hvað þetta Hamarslið er hrikalega gott. Það eru tveir útlendingar og fjölmargir landsliðsmenn í liðinu og þetta er bara stál í stál þegar þessi lið mætast," sagði Benedikt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×