Innlent

Lausnin tímabundin eftir árs undirbúning

Helst er deilt um rekstur loftvarnakerfisins, en þar undir fellur rekstur ratsjárstöðva NATO. fréttablaðið/stefán
Helst er deilt um rekstur loftvarnakerfisins, en þar undir fellur rekstur ratsjárstöðva NATO. fréttablaðið/stefán

Ráðstöfun verkefna Varnarmálastofnunar liggur fyrir til bráðabirgða. Óvissu rúmlega fimmtíu starfsmanna er eytt með niðurstöðunni, segir formaður verkefnastjórnar. Stjórnsýslan við framkvæmd þess að leggja stofnunina niður er hins vegar harðlega gagnrýnd.

Ríkisstjórnin ákvað í lok árs 2009 að leggja niður Varnarmálastofnun frá og með næstu áramótum. Það er hins vegar fyrst núna að samkomulag liggur fyrir á milli Ögmundar Jónas­sonar, dóms- og mannréttindaráðherra, og Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra um ráðstöfun verkefna stofnunarinnar.

Öryggisvottanir og þjóðar­öryggishluti stofnunarinnar færist til Ríkislögreglustjóra. Utanríkisráðuneytið heldur áfram utan um milliríkjasamskipti en önnur verkefni færast til Landhelgisgæslunnar tímabundið. Það á við um rekstur upplýsingakerfa, vöktun og eftirlit og umsjón mannvirkja. Það á að liggja fyrir 15. mars næstkomandi hvernig skipting verkefna verður til framtíðar.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur gagnrýnt stjórnsýslu málsins. „Ég lagði til að fyrst yrði mótuð öryggis­stefna fyrir Ísland og þá ákveðið hvaða verkefnum við ætlum að sinna og hvar þeim var best komið fyrir. Þá fyrst væri rætt um hvort leggja ætti niður stofnun­ina. Þetta var hundsað og menn óðu áfram með þekktum árangri. Það var byrjað á öfugum enda og framkvæmdin er þvert á það verklag sem Ríkis­endurskoðun og fjármála­ráðuneytið hafa mælt með.“

Ögmundur segir mikilvægast að fast land sé loks undir fótum starfsfólks en segir að kannski megi taka undir gagnrýni á stjórnsýsluna í málinu, eða að fyrst hafi verið tekin ákvörðun um að leggja stofnunina niður og síðan að leggjast yfir það hvernig verkefnunum yrði skipað niður. „Hins vegar vil ég horfa til framtíðar í þessu og á kostina. Við höfum þegar náð sparnaði með þeim breytingum sem hafa verið gerðar. Ég vil horfa á málið eins og það stendur en ekki hvernig átti að standa að málum í upphafi.“

Helst hefur staðið styr um hvernig rekstri loftvarnakerfisins verður háttað, en þar undir fellur rekstur ratsjárstöðva NATO á Íslandi. Starfsemin er nú tímabundið hjá LHG en einnig hefur verið rætt um að Isavia, áður Flugstoðir og Keflavíkurflugvöllur, taki við rekstrinum. Fyrir því er meirihlutavilji innan verkefnisstjórnar með breytingunum, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. svavar@frettabladid.is

Ögmundur Jónasson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×