Innlent

Þrír handteknir fyrir vopnað rán

Selfoss.
Selfoss. Mynd / GVA

Þrír menn á milli tvítugs og þrítugs réðust inn í heimahús á Selfossi um sex leytið í gær vopnaðir hnífum.

Ógnuðu þeir íbúum og gestum sem voru á heimilinu og höfðu á brott með sér tölvur og önnur verðmæti.

Lögregla var kölluð til og stöðvaði bifreið mannanna í bænum skömmu síðar. Tóku mennirnir þá á rás og hlupu undan lögreglu en í kjölfarið upphófst mikil leit að ræningjunum.

Naut lögreglan á Selfossi meðal annars aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra við leitina.

Tveir þeirra voru síðan handteknir á Selfossi en sá þriðji fannst í bíl við Rauðavatn, á leið til Reykjavíkur. Þýfið fannst á Selfossi.

Enginn slasaðist í atganginum en svo virðist vera sem mennirnir hafi eitthvað þekkt til á heimilinu. Þeir verða yfirheyrðir síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×