Innlent

Ákærðir fyrir sprengjuárás á lögreglustöð

Borgarnes. Mynd/ GVA.
Borgarnes. Mynd/ GVA.
Tveir ungir menn, átján og nítján ára, hafa verið ákærðir fyrir tilraun til brennu og brots gegn valdstjórninni fyrir Héraðsdómi Vesturlands. Þeir voru handteknir í Borgarnesi í lok nóvember í fyrra eftir að hafa kastað bensín­sprengjum í lögreglustöð bæjarins til að reyna að frelsa vin sinn úr haldi.

Piltarnir höfðu verið á dansleik fyrr um kvöldið og lent þar í orðaskaki við lögreglu eftir að ódæll félagi þeirra var handtekinn. Hann hafði í ölæði ógnað fólki með hafnaboltakylfu. Samkvæmt ákæru fóru þeir í kjölfarið og útbjuggu bensínsprengju með því að fylla áfengisflöskur af bensíni og troða tuskum niður í flöskuhálsinn. Sprengjunum köstuðu þeir logandi í lögreglustöðina. Önnur brotnaði, en eldurinn læsti sig ekki í húsið.

Í ákæruskjali segir að atlagan „hefði getað leitt til eldsvoða sem hefði haft í för með sér almannahættu með miklum skemmdum eða eyðileggingu á húsnæðinu, ef eldur hefði náð að breiðast út, en hending ein réði því að svo var ekki".

Þrátt fyrir að piltarnir hafi ráðist að húsinu í því skyni að frelsa mann úr haldi var húsið mannlaust, enda hafði félagi þeirra verið fluttur með lögreglubíl til Reykjavíkur þegar í ljós kom að hann var eftirlýstur þar. Þetta höfðu þeir hins vegar ekki hugmynd um. Fjórir voru upphaflega handteknir vegna málsins en sem fyrr segir eru einungis tveir ákærðir.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×