Innlent

Kýldi lögreglumann og neitaði að yfirgefa lögreglubíl

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kona á fertugsaldri var dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir það að neita að yfirgefa lögreglubíl sem hún fór inn í án heimildar í mars síðastliðnum og fyrir að kýla lögreglumann í bringuna. Konan játaði að hafa hundsað fyrirmæli lögreglunnar um að yfirgefa bifreiðina en neitaði að hafa kýlt lögreglumanninn. Dómurinn segir hins vegar að framburður þeirra lögreglumanna sem voru á staðnum hafi hins vegar verið á einn veg um það. Hún var því sakfelld.

Við aðalmeðferð málsins sagði konan að hún hafi verið að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur. Seint um nóttina hafi hún verið stödd á veitingahúsi og dottið. Hafi hún meitt sig á hendi. Hún hafi yfirgefið staðinn og ætlað heim á leið. Sárið hafi hins vegar verið ansi ljótt. Fyrir utan hafi hún séð lögreglubifreið. Hafi hún farið inn í bifreiðina til að leita sér hjálpar. Hafi hún sest inn í bifreiðina og rætt við mann sem þar hafi verið. Sá hafi ekki verið lögreglumaður. Viðkomandi hafi verið vinsamlegur. Eftir það hafi lögreglumenn borið að garði og þá allt orðið vitlaust.

Konan sagði að henni hafi verið skipað að yfirgefa bifreiðina en hún ekki orðið við þeim fyrirmælum. Hafi hún sýnt lögreglumönnum sárið en það engu skipt. Hafi hún verið færð út úr lögreglubifreiðinni. Í því hún hafi yfirgefið bifreiðina hafi hún hrasað. Kvaðst hún ekki muna eftir samskiptum eftir að hún hafi yfirgefið bifreiðina en þó muna að hún hafi ekki slegið lögreglumann. Hafi hún verið handtekin og færð á lögreglustöð. Kvaðst ákærða hafa verið nokkuð ölvuð þessa nótt en engu að síður muna atvik nokkuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×