Fótbolti

Diego Forlan: Tilbúinn að fara hvert sem er fyrir rétta tilboðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Forlan.
Diego Forlan. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það bjuggust flestir við því að Úrúgvæ-maðurinn Diego Forlan fyndi sér stærra lið í haust eftir frábæra frammistöðu sína á HM í Suður-Afríku þar sem hann var kosinn besti leikmaðurinn. Forlan hafði líka spilað frábærlega á síðasta tímabili þar sem að hann skoraði 32 mörk í spænsku deildinni og tryggði Atletico Madrid sigur í Evrópudeildinni

Það varð þó ekkert úr því að Forlan færi frá Atletico Madrid þar sem hann er samningsbundinn næstu þrjú árin. Næst komst hann því að fara til Tottenham en það eru margir sem muna eftir vandræðalegri frammistöðu hans með Manchester United á sínum tíma. Hann er alveg tilbúinn að reyna sig á nýjan leik í enska boltanum.

„Ef ég fæ tækifæri til að fara frá Atletico þá fer ég. Ég segi alltaf að ég fór að heiman til þess að spila í Evrópu og ég er ekkert tengdur einu liði því allt mitt fólk er í Úrúgvæ," sagði Diego Forlan.

„Þú velur besta tilboðið sem býst þér og ef það er gott fyrir þig og gott fyrir félagið þá er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að fara. Þessi hugsanlegu tilboð eru þó bara í blöðunum og þau berast sjaldnast félaginu," sagði Forlan.

Forlan skoraði ekki fyrstu átta mánuðina sem hann spilaði með Manchester United og var oftast á bekknum þegar hann lék með United frá 2002 til 2004.

„Það eru allir að tala um að ég vilji ekki koma aftur til Englands. Ég átti frábæran tíma í Englandi og ég yrði mjög ánægður með að koma og spila aftur í ensku úrvalsdeildinni," sagði Forlan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×