Erlent

Alvöru da Vinci leyndarmál í augum Monu Lisu

Óli Tynes skrifar
Mona Lisa
Mona Lisa

Formaður menningararfs-nefndar Ítalíu hefur skýrt frá því að Leonardo da Vinci hafi skrifað bæði tölustafi og bókstafi með agnarsmáu letri í augun á málverki sínu af Monu Lisu. Ráðist var í nýja rannsókn á verkinu eftir að einn nefndarmanna rakst á bók á fornbókasölu þar sem talað var um tákn í augum Monu Lisu. Fræðimenn fóru þá að horfast í augu við dísina í gegnum risastórt stækkunargler. Og sjá, þar leyndust tákn.

Silvano Vinceti formaður menningararfs-nefndarinnar segir að stafirnir séu agnarsmáir en sjáist greinilega með stækkunarglerinu. Í hægri augastein Monu Lisu eru stafirnir LV sem gæti staðið fyrir Leonardo da Vinci. Í vinstra auganu eru táknin ekki jafn skýr en stafirnir gætu verið CE eða CB. Einnig má greina annaðhvort töluna 72 eða L2.

Vinceti segir að hafa verði í huga að málverkið sé nær 500 ára gamalt og stafirnir því ekki jafn skýrir og þegar það var fyrst málað. Enginn vafi leiki hinsvegar á að þetta var með vilja gert.

„Við vitum að da Vinci lét sér sérstaklega annt um Monu Lisu og að síðustu ár ævi sinnar tók hann málverkið með sér hvert sem hann fór„ segir Silvano Vinceti. „Við vitum líka að í verkum sínum notaði da Vinci tákn til þess að senda skilaboð." Hvaða skilaboð táknin í augum Monu Lisu flytja mun sjálfsagt kosta miklar vangaveltur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×